Einar Hugi Bjarnason sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði formann Fjölmiðlanefndar þvert á tillögu sérfræðinga ráðuneytisins er sagður hafa fengið fimmtán og hálfa milljón króna fyrir nefndarsetu og lögfræðiráðgjöf fyrir ráðuneytið. Hann hefur seti í að minnsta kosti átta nefndum á vegum Framsóknarflokksins.
Ríkisútvarpið greindi frá því í kvöld að menntamálaráðuneytið hefði svarað fyrirspurn þess um greiðslur til Einars Huga. Milljónirnar fékk hann fyrir formennsku í nefndum og lögfræðiráðgjöf vegna ýmissa mála undanfarin tvö og hálft ár.
Átta milljónir króna eru vegna lögfræðiráðgjafar og segir RÚV það um þriðjung alls aðkeypts lögfræðikostnaðar ráðuneytisins frá því að Lilja tók við lyklavöldum þar. Fimm og hálf milljón króna var vegna vinnu við frumvarp um styrki til einkarekinna fjölmiðla.
Lilja skipaði Einar Huga sem formann Fjölmiðlanefndar þvert á tillögu sérfræðinga og þrátt fyrir að hann hefði litla sem enga reynslu á sviði fjölmiðla. Sérfræðingarnir mæltu með því að Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor í lögfræði við Háskólanna í Reykjavík og einn helsti sérfræðingur landsins í fjölmiðlarétti yrði skipaður formaður nefndarinnar.
Skammt er síðan kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Lilja hefði brotið lög þegar hún skipaði Pál Magnússon, flokksbróður sinn, sem ráðuneytisstjóra. Lilja hefur hafnað því að tengsl Páls við Framsóknarflokkinn hafi haft nokkuð að gera með ákvörðun hennar að skipa hann ráðuneytisstjóra. Umboðsmaður Alþingis hefur málið til skoðunar.