-----
Talsverður styr hefur verið á Alþingi vegna kjörs Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, í formannssæti umhverfis- og samgöngunefndar í dag. Bergþór var kjörinn með tveimur atkvæðum Miðflokksins á meðan fulltrúar annarra flokka í nefndinni sátu hjá.<br /><br />Ljóst er að ekki öllum þingmönnum nægir að deila um pólitísk málefni á dagvinnutíma þar sem þónokkur umræða spratt upp á meðal þingmanna á Facebook í kvöld um það hver beri raunverulega ábyrgð á formannsskipan Bergþórs.<br /><br /><strong>Sjá einnig: <a href="#!1-1!#">Bergþór kjörinn formaður og iðrast enn hegðunar sinnar á Klaustur barnum<br /><br /></a></strong>Halla Signý Kristjánsdóttir, þingkona Framsóknar, minnir á það í Facebookfærslu að við upphaf kjörtímabilsins hafi ríkisstjórnarflokkarnir gert samkomulag við stjórnarandstöðuna um skiptingu embætta í nefndum þingsins. Af þeim sökum eigi minnihlutinn að skipa formann í þrjár nefndir þingsins, sem hún segir „ekki flókið enda hafa þau yfir að ráða ágætisfólki svona að mestu.“<br /><br />„Bergþór komst þannig inn sem formaður mótakvæðalaust af hálfu minnihlutans,“ segir Halla jafnframt og vísar þá væntanlega til ábyrgðar stjórnarandstöðuflokkanna í málinu sem hafa verið einna gagnrýnastir á skipun Bergþórs, að Miðflokknum undanskildum.<br class="hardreturn" /> <h2>„Þið eruð með meirihluta og berið því ábyrgð“</h2> Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, tekur ekki undir þessa greiningu og bendir á að erfitt hefði verið fyrir hina fulltrúa minnihlutans í nefndinni að koma að öðrum fulltrúa í formannsstólinn án stuðnings meirihlutans.<br /><br />„Halla mín, meirihlutinn hefur fimm atkvæði, Miðflokkur tvö, Samfylking eitt og Viðreisn eitt. Hvernig í veröldinni áttu flokkarnir tveir að koma að öðrum formanni? Við reyndum það í vetur en þið, þar á meðal fulltrúi Framsóknar greiddi hins vegar atkvæði með tillögu miðflokks. Þið eruð með meirihluta og berið því ábyrgð.“<br /><br />Fleiri fulltrúar minnihlutans taka undir með Helgu Völu og eru ósáttir með orð Höllu.<br class="hardreturn" /> <h2>Fordæmdu kjör Bergþórs í bókunum sínum</h2> „Er hægt að fela sig bak við þetta samkomulag í öllum tilfellum? Er það bara hin eilífa afsökun?“ ritar Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata í nefndinni, sem fordæmdi kjör Bergþórs í bókun sinni líkt og fulltrúi Viðreisnar og einn fulltrúi Vinstri grænna.<br /><br />Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaþingkona Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, fer jafnframt hörðum orðum um ummælin.<br /><br />„Halla Signý, að reyna að klína formennsku Bergþórs á minnihlutann eftir allt sem á undan er gengið er alger lágkúra. Talaðu við fólkið þitt. Dragðu í land núna áður en við förum öll með tölu að tala eins og okkur lystir.“<br /><br /><em><strong>Hér má sjá Facebook færslu Höllu Signýjar í heild sinni.</strong></em><br class="hardreturn" />
-----